Nýtt kalt stríð?

Það lítur út fyrir að Bandaríkin séu að boða nýtt kalt stríð. Í þetta skipti verða Kína og Rússland andstæðingarnir. Bandaríkin voru um tíma eina ríkið sem kalla mátti heimsveldi. Þegar þeim fór að verða ljóst að þau gætu ekki viðhaldið þeirri stöðu, virðast þau hafa dustað rykið af gömlum hugmyndum og ákveðið að hefja nýtt kalt stríð. Ég ætla að leyfa mér að spá því að þau áform muni fara út um þúfur.

Ég hef stundum hlustað á mann að nafni Kishore Mahbubani. Hann er fyrrverandi utanríkisráðherra Singapúr og á að baki langan feril sem diplómati. Hann segir að þegar hann ferðist um heiminn og tali við ráðamenn og framámenn, þá séu þeir bandarísku eins og á annarri plánetu. Í Asíu, Mið-Austurlöndum og Afríku snúist allt um efnahagslega framþróun, viðskipti, samvinnu og að leggja á ráðin um það hvernig eigi að fjármagna metnaðarfull verkefni. Í Bandaríkjunum hins vegar sé ekki mikill áhugi á þessu. Þar eigi stórveldakeppni hug ráðamanna allan. Þeir virðist ekki vera í nokkrum tengslum við restina af heiminum og ímyndi sér að þeir geti þröngvað upp á ríki heims framtíðarsýn sem lítill áhugi sé á. Eftir að kalda stríðinu lauk boðuðu Bandaríkjamenn frjálsa alþjóðlega samkeppni, en á undanförnum árum hafa þeir verið að hverfa frá þeirri stefnu. Dæmi um þetta eru aðgerðir þeirra gegn kínverska símtækjaframleiðandanum Huawei þar sem þeir hafa beitt ríki, einkum bandalagsríki sín, þrýstingi að kaupa ekki símakerfi frá fyrirtækinu. Sú stefna að beita viðskiptaþvingunum hefur á sama tíma farið úr böndunum. Þessar viðskiptaþvinganir flækja alþjóðleg viðskipti og valda ríkjum, sem þeim er ekki beint gegn, tjóni. Svo hafa bæst við þvinganir sem er beint gegn þriðja aðila, það er að segja ríkjum sem kaupa ákveðnar vörur af Rússum og Kínverjum. Á tímum kalda stríðsins voru ekki mikil viðskipti milli blokkanna sem tókust á. En heimurinn er í dag gjörbreyttur og þessi stefnubreyting veldur mikilli óánægju. Bandaríkjamenn virðast ekki hafa borið gæfu til þess að endurskoða stefnuna frá því í kalda stríðinu. En það er sú stefna að skipta heiminum upp í bandamenn og andstæðinga og hafa stjórn á bandamönnunum með því að ala á ótta við andstæðingana.

Kínverjar sögulega ekki stundað heimsvaldastefnu. Á undanförnum áratugum hafa þeir haldið sig við það og einbeitt sér að uppbyggingu Kína. Bandaríkin lærðu heimsvaldastefnuna af evrópsku nýlenduveldunum sem höfðu mikið upp úr henni. En hvers vegna skyldu Kínverjar vilja læra nokkuð af heimsvaldastefnu Bandaríkjanna annað en að forðast hana? Zhang Weiwei, sem í dag er fræðimaður en starfaði áður sem túlkur Deng Xiaoping, segir að Kínverjar hafi fjárfest í innviðum á meðan Bandaríkjamenn fjárfestu í hernaði. Að hernaðarævintýrin hafi farið út um þúfur og gert Bandaríkin veikari á meðan Kína varð sterkara. Bandaríkjamenn virðast líta svo á að allir hugsi eins þeir sjálfir. Þeir ímynda sér að Kínverjar bíði spenntir eftir að geta tekið upp sína stefnu. Að það sé lögmál stórveldanna og á þeim forsendum geti þeir geti þeir rekið í Asíu stefnu í anda kalda stríðsins byggða á ótta við Kína. Fyrrnefndur Kishore Mahbubani tók í áratugi þátt í starfi ASEAN, en það eru samtök tíu ríkja í Suðaustur-Asíu. Hann segir að meðal þeirra ríkja sé enginn áhugi á hugmyndum Bandaríkjamanna um hernaðaruppbyggingu á svæðinu. Áhuginn sé á efnahagsuppbygginu og að Bandaríkjamenn séu að tapa áhrifum sínum á svæðinu í hendurnar á Kínverjum þar sem þeir bjóði ekki framtíðarsýn í efnahagsmálum. Fyrrverandi forsætisráðherra Malasíu, Mahathir Mohamad, hefur sagt eitthvað á þá leið að landið hefði verið nágranni Kína í þúsund ár án þess að Kínverjar hafi ráðist á það, en að Portúgalar hafi komið á fimmtándu öld og hafi stuttu seinna verið búnir að leggja svæðið undir sig og farnir að stjórna með harðri hendi. Hann bætti því við að hann hefði engan áhuga á að þurfa að velja á milli Bandaríkjanna og Kína, en ef hann væri neyddur til þess myndi hann velja Kína. þegar ég hlusta á stjórnmálaskýrendur frá Asíu finnst mér að þeir gefi vestrænum hugmyndum um Kína ekki háa einkunn. Að hugmyndirnar verði til í myrkvuðu herbergi fremur en með skoðun á raunveruleikanum og sögunni. Saga Kína og mótun hugmynda þar hefur að mestu leyti farið fram án samskipta við Vesturlönd. Þá sögu og þær hugmyndir þekkja nágrannar Kína vel og þeir verða ekki sannfærðir um að kínverskt stórveldi muni reka sömu stefnu og þau vestrænu.

Ráðandi kenningar á Vesturlöndum um Rússland eru ekki settar saman af meiri vandvirkni en kenningarnar um Kína. Af þeim mætti ráða að Rússar hafi engar ályktanir dregið af falli Sovétríkjanna og vilji ólmir taka upp sömu stefnu og rak þá í þrot ekki fyrir löngu. Rússar líta í dag svo á að kaldastríðsstefna þeirra í Austur-Evrópu hafi verið mislukkuð. Hún kostaði þá stórfé og olli því að síðan þá ríkir þar mikið vantraust í þeirra garð. Stefna Sovétríkjanna í Mið-Austurlöndum fær heldur ekki háa einkunn. Rússneskur stjórnmálaskýrandi bar saman stefnuna þá og nú og sagði að áður hefðu arabaleiðtogar komið til Moskvu til að betla peninga og vopn, en nú komi þeir til þess að gera viðskiptasamninga. Í dag er stefnan sú að byggja upp samskipti við öll ríki heimshlutans. Þannig hafa þeir unnið að fríverslunarsamningum bæði við Íran og Ísrael, byggt kjarnorkuver í nokkrum löndum fyrir milljarða dollara og þróað samskipti við Sádi-Arabíu sem hefur skilað þeim samstarfi um að stjórna heimsmarkaðsverði á olíu. Ég hef oft hlustað á Pútín þar sem hann situr fyrir svörum. Hann lítur svo á að Bandaríkin muni fyrir rest neyðast til að endurskoða stefnu sína, að heimurinn sé að þróast á þann hátt að eitt ríki geti ekki haft yfirburðastöðu. Hann sér fyrir sér að það muni taka Bandaríkin um það bil áratug að sætta sig við það. Pútín hefur oft lýst þessari afstöðu og gerði það til dæmis á Valdai ráðstefnunni í fyrra. Þegar hann lýsir þessari sýn, þá gerir hann það eins og um borðleggjandi staðreynd sé að ræða, þannig að ég verð að draga þá ályktun að utanríkisstefna Rússlands taki mið af því að svo sé. Í salnum voru fulltrúar frá öllum heims hornum sem virtust taka þessum skilaboðum vel.

Bandaríkin hafa aldrei endurskoðað kaldastríðsstefnu sína í Mið-Austurlöndum og haldið sig við að skipta heimshlutanum upp í bandamenn og andstæðinga. Þegar Sádi-Arabía tók að vinna að bættum samskiptum við Íran þá má túlka það svo að þeir hafi verið að hafna kaldastríðsstefnunni. Á svipuðum tíma buðu þeir Assad Sýrlandsforseta á fund Arababandalagsins þar sem landið var að nýju tekið inn í bandalagið. Sádi-Arabía og Íran gerðu svo með sér formlegt samkomulag fyrir milligöngu Kínverja. Kínverjar eru því farnir að beita sér fyrir nýrri hugsun í heimshlutanum. Sádí-Arabía og Íran ásamt Egyptalandi gengu síðan í BRICS sem segja má að Kínverjar og Rússar veiti forystu. Tyrkir stefna á inngöngu líka, og gerist það munu öll fjögur þungavigtarríki Mið-Austurlanda eiga aðild að samstarfinu. Þegar ríki sem lengi hafa verið í bandalagi við Bandaríkin, eins og Sádí-Arabía og Tyrkland, ganga í BRICS þá ber ekki að túlka það sem svo að þau hafi skipt um hest og ætli sér að elda grátt silfur við Bandaríkin. Þau ætla sér einfaldlega að taka sér meira sjálfstæði í utanríkismálum og fá Bandaríkin til aðlaga sig að breyttum heimi. Kaldastríðsstefna Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum er því á fallanda fæti. Tilraunir Bandaríkjanna til að þróa samskipti við Indland hafa gengið brösuglega. Þeir eiga erfitt með að nálgast samskiptin út frá gagnkvæmum hagsmunum ríkjanna og sitja fastir í því að sjá Indland sem mótvægi við Kína. Á blaðamannafundi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Suður-Afríku gagnrýndi utanríkisráðherra Suður-Afríku löggjöf sem liggur fyrir Bandaríkjaþingi og boðar refsiaðgerðir gegn ríkjum sem hafa samstarf við Kínverja. Hún sagðist ekki geta ímyndað sér að nokkurt Afríkuríki með sjálfsvirðingu gæti sætt sig við slíka meðferð.

Það eru ekki lengur forsendur fyrir því að lítill hópur ríkja geti komist í þá stöðu sem evrópsku nýlenduveldin höfðu, né heldur að eitt ríki geti haft stöðu Bandaríkjanna einss og hún var við lok síðari heimsstyrjaldar. Andstæðingar Bandaríkjanna í þessu nýja kalda stríði ætla sér ekki að keppa um áhrif í heiminum á forsendum kalda stríðsins. Af orðum Pútíns að dæma sjá þeir fyrir sér að leyfa Bandaríkjunum að rembast við að fá ríki til fylgis við úreltar hugmyndir sem lítill áhugi er á þangað til þau gefast upp á því. Þeir líta svo á að tíminn vinni með sér og eru sjálfir að vinna að framtíðarsýn sem tekur mið af breyttum heimi. Sú sýn leggur áherslu á samstarf í efnahagsmálum og sinnir betur þörfum þróunarríkja. Dæmi um þetta er BRICS-samstarfið þar sem yfir þrjátíu ríki hafa lýst áhuga á að gerast aðilar.

Það verður að teljast líklegt að bandalagsríki Bandaríkjanna fari með tímanum að hafa efasemdir. Bandaríkin hafa alla tíð sett sig upp á móti því að Evrópa kaupi ódýrt gas af Rússum og nú hefur þeim tekist að fá Evrópu til að kaupa bandarískt gas á uppsprengdu verði. Og til að bíta höfuðið af skömminni eru Bandaríkin farin að lokka til sín með gylliboðum evrópsk iðnfyrirtæki sem eiga orðið erfitt með að standa undir rekstri vegna hækkunar á orkuverði. Bandaríkin eru einnig farin að þrýsta á Evrópu um að minnka viðskipti sín við Kína sem er orðið stærsta viðskiptaríki Evrópu. Það sem Evrópa fær í staðinn er að Bandaríkin verji Evrópu fyrir Rússum. En þá verður ógninni auðvitað viðhaldið. Evrópa situr föst í hugsanagangi kalda stríðsins og með tímanum gætu leiðtogar þar komast að því að þjóðum sem hafa hafnað þessu hlutskipti vegnar betur. Þær reka sjálfstæða utanríkisstefnu, verja sína eigin hagsmuni fremur en að þjóna öðrum, kaupa þar sem er ódýrast og selja þar sem fæst best verð.


Bandaríkin hrökklast frá Afganistan

(Skrifað 17. ágúst 2021)
 
Kaþólskur prestur sem ég þekki hér í Bishkek sagði mér að í Kabúl væru nunnur á vegum kirkjunnar. Þær eru þar að sinna börnum sem hafa slasast eða orðið munarðlaus í átökunum. Í Kabúl hefur í gegnum árin kostað um tvær miljónir að flytja einn diplómata eða starfsmann alþjóðastofnunar frá flugvellinum inn í borgina í bílalest. Þeir keyra fram hjá íbúunum sem oft eru í engum skóm og eiga lítið að borða. Nú þegar borgin fellur neita Nunnurnar að yfirgefa börnin og ætla að vera áfram. Treysta á guð. Byssumennirnir frá NATO hlaupa í burtu. Starfsmenn alþjóðastofnana taka líka til fótana. Taka með sér mávastellið og kontrabassann. Afganir fá ekki sæti í flugvélinni. Þeim virðist vera ætlað að hanga utan á henni.
 
Íslensk stjórnvöld hafa auðvitað stutt þennan stríðsrekstur. Þau hafa stutt öll stríð vesturlanda á þessari öld. Hundruð þúsunda hafa fallið. Heilu þjóðirnar lagðar í rúst. Miljónir á vergangi. Og við berjum okkur á brjóst fyrir að taka við tíu flóttamönnum. Auk þess að styðja stríð þá styðjum við viðskiptaþvinganir líka. Nú síðast gegn Sýrlandi. Að neita stríðshrjáðum almenningi í Sýrlandi um lyf mundi ríkisstjórnin kalla “að taka þátt í aðgerðum”.
 
Á síðustu áratugum hafa orðið ótrúlegar framfarir í heiminum. Velmegun þar sem áður var fátækt. Hungursneyðir heyra nánast sögunni til, barnadauði og ólæsi hafa farið hratt minnkandi. Nema auðvitað þar sem vesturlönd ákváðu að dreifa kærleika sínum. Stríðin hafa oftar en ekki verið réttlætt með mannúðarsjónarmiðum og af mannréttindasamtökum í sumum tilfellum. Þar er ástandið verst. Kólera, hryðjuverk, skelfing og dauði. Og allt saman óþarft.
 
Stundum er sagt að sigurvegararnir skrifi söguna. Í þetta skipti verður hún ekki skrifuð af vesturlandabúum. Til þess munu þeir ekki hafa trúverðugleika. Sú stefna að heyja stríð út um allan heim í nafni lýðræðis, mannréttinda og vestrænna gilda er túlkuð af stórum hluta mannkyns sem framhald af nýlendustefnunni. Byrði hvíta mannsins. Að koma barbörunum til siðmenningar. Söguskýringin verður sú að nýlendustefnunni hafi í raun ekki lokið fyrr en á 21. öldinni. Að þjóðir heims hafi loks komist til velmegunar eftir að þeim tókst að hrekja nýlenduveldin og afskipti þeirra af höndum sér. Það mun reynast Kínverjum auðvelt að selja þessa hugmynd. Að stilla upp efnahagslegum framförum á móti stríðsrekstri og viðskiptaþvingunum. Vesturlönd verða í samanburði álíka sannfærandi og Sovétríkin við fall berlínarmúrsins.
 
Það er ekki líklegt að vestrænir stjórnmálamenn og fjölmiðlar hafi rænu á að snúa baki við þessari stefnu. Líklegra er að þegar hún endanlega bíður skipbrot muni þeir finna sig í svipuðu andlegu ástandi og Hitler á síðustu dögum stríðsins. Veruleikafyrrtir og í mikilli geðshræringu.
 
íslensk stjórnvöld munu styðja stríðin fram á síðasta dag.

Verðbólgudraugurinn

Verðbólgudraugurinn er sá draugur sem verst hefur farið með Íslendinga. Stjórnmálamenn, verkalýðsforkólfar og hagfræðingar hafa verið duglegir við að hrista drauginn framan í allmenning í þeim tilgangi að sannfæra fólk um að allar kjarabætur til handa almenningi verði alltaf étnar upp af draugnum.

Verðbólga
Sú verðbólga sem talað er um í fréttatímunum endurspeglar almennar vöruverðhækkanir. Vöruverð ræðst af framboði og eftirspurn og með hve skilvirkum hætti vara er framleidd. Til dæmis lækka tölvur sífelt í verði vegna aukinnar skilvirkni meðan olía hækkar vegna aukinnar eftirspurnar.
Ef sú verðbólga sem verið hefur hér allt frá ómunatíð stafaði af verðhækkunum myndi það þýða að við hefðum búið við viðvarandi vöruskort og afturför í framleiðslutækni.
Hægt er að líta á verðbólgu annarsvegar út frá verðlagi og hinsvegar út frá peningamagni. Ef við ímyndum okkur lokað hagkerfi þar sem aðeins ein vara er í boði og peningamagn er aukið um 10% á sama tíma og framleiðni eykst um 10% myndum við út frá verðlagi segja að verðbólgan hafi verið 0% en út frá peningamagni 10%. Þetta þýðir að þó svo að mæld verðbólga sé 0% getur maður sem ekki nýtur góðs af hinu aukna peningamagni verið rændur um þær verðlækkanir sem aukin skilvirkni í hagkerfinu myndi annars skila honum.
Það kostar ekki mikið að prenta fimmþúsundkall og enn minna að búa hann til á tölvuskjá, en hvernig geta þá peningar sem búnir eru til úr engu fengið verðgildi? Þeir gera það í krafti þess að slíkir peningar eru þegar í umferð og eru viðurkenndir. Hinir nýju peningar draga því verðgildi sitt af þeim peningum sem þegar eru í umferð og rýra því kaupmátt gjaldmiðilsins. Af þessari ástæðu þykir peningafals ekki göfug starfsemi og má þá einu gilda hvort gerandinn er bófi eða banki.
Verðbólgan sem við búum við er peningamagnsverðbólga og það má segja að við séum blekkt til að halda að kaupmáttur okkar aukist við að fá hærri laun og að þeir sem ráða peningamagninu hafi völd yfir skilningi okkar á eigin efnahag og þar með stórum hluta tilveru okkar.

Ættir draugsins raktar
Undir því fyrirkomulagi peningamála sem við búum við eykst peningamagnið í gegnum bankakerfið. Það gengur þannig fyrir sig að ef lagður er þúsundkall inn í banka og bindiskylda er 10% þá getur bankinn lánað út 900 kr, þær enda svo iðulega í öðrum banka sem þarf að leggja 10% til hliðar og lánar út restina og svo koll af kolli þangað til að þúsundkallinn í upphafi er orðinn að tíuþúsundkalli. Galdurinn er sá að bankinn telur sömu krónuna tvisvar, sem inn og útlán. Peningar í umferð eru þeir peningar sem hægt er að grípa til með stuttum fyrirvara og bjóða á móti þeirri vöru og þjónustu sem í boði er. Þar sem þeir peningar í bankakerfinu sem liggja á opnum reikningum eru ekki allir teknir út í einu getur bankinn í krafti veltunnar boðið sömu krónuna tvisvar.
Sú hætta er alltaf fyrir hendi að allir eða óvenju margir innistæðueigendur taki peningana sína út á sama tíma og bankinn geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Það má segja að bankinn sé í raun á hverjum tíma tæknilega gjaldþrota og lofi bankinn að afgreiða fé sem hann getur ekki afgreitt má segja að um sviksamlega starfsemi sé að ræða.
Það fyrirkomulag hefur því komist á að ríkið tryggi innistæður og sjái bankanum fyrir auðveldu aðgengi að fé gegnum seðlabanka til að þetta kerfi geti haldið sjó. Með þessu gerir ríkið bönkunum mögulegt að auka peningamagn í umferð langt umfram það sem annars væri mögulegt.
Fyrir sinn snúð fær svo ríkið tæki til að hafa áhrif á efnahagskerfið með stýrivöxtum og byndiskyldu.
Þar sem bankarnir eru háðir ríkinu og hagstjórnar tæki ríkisins liggja gegnum bankakerfið myndast hálfgert hjónaband þeirra á milli. Niðurstaðan er sú að vegna ríkisstuðnings verða bankarnir áhættusæknir og ríkið fer að líta á bankakerfið sem undirstöðu efnahagskerfisins sem það mun verja í lengstu lög til að tryggja áhrif sín í efnahagskerfinu.
Seðlabanki hefur það hlutverk að halda verðbólgu innan ákveðinna marka og til að uppfylla þá skyldu sína hefur hann tvö tæki, stýrivextii og bindiskyldu. Séu stýrivextir hækkaðir munu almennir vextir hækka og útlánum því fækka sem aftur hemur útþenslu peningamagns og þar með verðbólgu. Sé byndiskylda aukin minnka margföldunaráhryfin í bankakerfinu og þar með verðbólgan. Það má því segja að það sé opinberlega viðurkennt hvaðan verðbólgan á rætur sínar þó svo að almenningur sé látinn halda að hún stafi af verð og launahækkunum.
Röksemdafærslan fyrir því að auka peningamagn í umferð er sú að verðhjöðnun sé af hinu illa því að þá hafi menn tilhneigingu til að ávaxta peningana undir koddanum frekar en að fjárfesta þeim. Það fyrirkomulag að auka peningamagn í gegnum bankakerfið er svo rökstutt með því að með þeim hætti sé hægt að halda vöxtum niðri þar sem að aðgangur að ódýru lánsfé sé mikilvægur. Það má því segja að sett hafi verið upp kerfi sem niðurgreiðir vexti með verðbólgu.

Kjarabarátta

Ef við setjum fram einfalda fullyrðingu: Þeir sem hafa lág laun eru í þeirri stöðu vegna þess að það er meira framboð en eftirspurn eftir þeirra starfskröftum og þeir eiga erfitt með að flytja sig yfir í betur borguð störf. Þetta getur til dæmis stafað af einhæfri þekkingu eða búsetu.
Við getum tekið dæmi af litlu byggðarlagi úti á landi þar sem er staðbundin efnahagslægð. Fólkið á þessum stað á erfitt með að flytja burt þar sem það getur ekki selt eignir sínar og ekki er hægt að fá lán til atvinnu uppbyggingar. Verðbólgan bitnar engu að síður á fólkinu á staðnum sem hefur ekki aðgang að því lánsfé sem fjármagnað er með henni.
Verðbólgan mun alltaf koma verst niður á þeim sem hafa verst kjörin því að hún étur þann kaupmátt sem það hefur og fátækir og eignalausir hafa auðvitað ekki aðgang að lánsfé. Verðbólgufjármögnun á lánsfé mun því alltaf leiða til misskiptingar.
Þegar þeir sem lægst hafa launin fara í kjarabaráttu, þar sem krafan er oft aðeins sú að leiðrétta laun fyrir verðbólgu, þá upphefst söngurinn um að ef laun hækki muni verðbólgudraugurinn koma og éta alla hækkunina. Þann söng syngja stjórnmálamenn og samtök atvinnulífsins, hagfræðingar spila undir og verkalýðsforkólfar sjá um bakraddirnar. Þetta tónverk hjómar auðvitað hvað verst í eyrum stórra stétta sem hafa ekki um aðra vinnuveitendur að velja en ríkið, eins og starfsfólk í mennta og heilbrigðisgeiranum. Fólki er sem sagt uppálagt að verja sig ekki gegn verðbólgu sem á rætur sínar í bankakerfinu því að þá verði verðbólgan enn verri. Þetta er hin opinbera íslenska efnahagskenning rekin af stjórnvöldum í krafti vanþekkingar almennings á verðbólgu. Á sama tíma auka bankar peningamagnið með því að lána fyrir kaupum í sjálfum sér með velþóknun og aðstoð hins opinbera.

Verðtrygging
Þar sem verðbólga stafar af bankakerfinu hlýtur verðtrygging að vera áhugavert fyrirbæri. Hún gengur þannig fyrir sig að lántakandi kemur í banka og vill húsnæðislán. Bankinn býður verðtryggt og óverðtryggt lán. Bankinn segir lántakanda að verðtryggt lán sé hagstæðara og að verðbólgumarkmið seðlabanka séu 2,5%. Lántakandi heldur að verðbólga sé óvissuþáttur fyrir bankann og með verðtryggingu geti hann því boðið lægri vexti, seðlabanki í samstarfi við veðurstofuna muni svo sjá um verðbólguna. Hann áttar sig ekki á því að vextirnir á óverðtryggða láninu endurspegla raunverulega verðbólguspá bankans sem er meðal annars byggð á hans eigin útlánastefnu. Þegar búið er að skrifa undir getur svo lántakandi beðið til guðs um að bankinn breyti ekki útlánastefnunni og haldi áfram að lána til húsnæðiskaupa því annars gæti húsnæðisverð lækkað meðan kartöfluþáttur verð vísitölunnar rýkur upp og gerir lántakanda gjaldþrota. Þegar bankinn er búinn að koma því þannig fyrir að langtímalánin eru verðtryggð hefur hann frjálsar heldur með útlánastefnuna. Hann getur stundað eins mikla lánaútþenslu og honum sýnist því að hann er búinn að tryggja langtímalánin fyrir eigin aðgerðum. Bankinn fer því að bera lán á fólk og allt að því krefst þess að hver maður sé með hálfa miljón í yfirdrátt.
Hefði verðtrygging verið afnumin þegar bankarnir voru seldir og verðbólga var í þokkalegu horfi hefðu bankarnir orðið að hafa hemil á eigin útlánum til að tapa ekki á langtímalánunum. Seðlabankastjóri bar því við að hækkun bindiskyldu hefði ekki slegið á útlánaþensluna og stýrivaxta hækkanir bitu ekki, það má velta því fyrir sér hvort afnám verðtryggingar hefði verið meðalið.
Vöruverð á alþjóðlegum mörkuðum hefur sömu áhrif á verðlag hér og í öðrum opnum hagkerfum. Samt sem áður hefur verðbólga verið hærri hér en í nágrannalöndunum. Það er ein hagstærð sem stendur uppúr þegar Ísland er skoðað, útþensla peningamagns. Hún hefur valdið því að ein dönsk króna kostar í dag um 1600 íslenskar sé miðað við gengið þegar að íslenska krónan var tekin upp.

Verðbólguhagkerfið
Undir þessu fyrirkomulagi peningamála og þeirri hagfræði sem byggst hefur upp í kringum það er ekki um hefðbundið markaðshagkerfi sem byggir á framleiðslu ,hagræðingu og sparnaði að ræða. Fremur er um að ræða hagkerfi sem drifið er áfram af verðbólgu. Þegar hagsveiflan hefst eru vextir lágir og útlán fara að aukast. Nýju peningarnir eru notaðir til að hækka boð í eignir sem réttlætir svo frekari útlán og af stað fer sjálfsfóðrandi lána og eignabóla. Smám saman fer eignaverðbólgan að dreifast út í almennt verðlag. Þá taka vextir að hækka og útlán minnka. Þá er svo komið að offjárfesting hefur orðið í ýmsum greinum hagkerfisins vegna þess að peningamagnsaukningin skilaði markaðnum röngum upplýsingum. Því verður samdráttur meðan hagkerfið er að ná jafnvægi á ný.
Gallinn er sá að verðbólguhagfræðin lítur hina peningamagnsdrifnu uppsveiflu jákvæðum augum og lítur svo á að þær greinar sem peningamagnið streymir inn í drífi hagkerfið áfram. Þannig var það í .com bólunni í Bandaríkjunum, þá var því haldið fram að tölvugeirinn drifi hagkerfið áfram þangað til bólan sprakk og í ljós kom gríðarleg sóun og glórulausar fjárfestingar. Þá voru vextir lækkaðir og grunnurinn lagður að húsnæðisbólunni, sem svo auðvitað var álitin drífa hagkerfið áfram þangað til hún svo sprakk og dró fjármálakerfið með sér ofan í svaðið.
Í uppsveiflunni getur hlutabréfaverð hækkað gríðarlega og eigendur hafa meira upp úr því að stuðla að hækkandi hlutabréfaverði en að hafa tekjur af starfsemi fyrirtækisins. Fyrirtæki geta verið hátt verðmetin án þess að borga nokkurn arð eða hafa nokkrar tekjur. Þetta veldur því að eigendur fyrirtækja fara að einbeita sér að því að hámarka verðmæti fyrirtækisins til skamms tíma fremur en að einbeita sér að tekjustofnum, hagræðingu og langtíma fjárfestinu. Þessvegna er það oft svo að þegar að bólan springur reynast þau fyrirtæki sem risu hvað hæst í uppsveiflunni gjaldþrota, skuldug og yfirveðsett.
Skynsamlegasta útskýringin á hagsveiflu af þessu tagi er hin austurríska kenning um hagsveifluna (austrian theory of the trade cycle). Samkvæmt henni er það sú aðgerð að lækka vexti niður fyrir markaðsvexti með peningamagnsaukningu sem gefur hagkerfinu röng skilaboð og leiðir af sér fjárfestingar sem ekki geta staðið undir sér og hefðu annars ekki átt sér stað. Þegar vextir eru lækkaðir niður fyrir markaðsvexti eru fjárfestar blekktir til að halda að sparnaður hafi aukist og að margir hafi tekið þá ákvörðun að skera við sig neyslu til skamms tíma til að auka hana síðar. Lægri vextir hafa sérstaklega mikil áhrif á langtíma fjárfestingar þar sem langur tími líður þar til fjárfestingin fer að skila arði. Þegar svo að því kemur þá reynast hinir meintu sparendur ekki vera vera til staðar, þeir hafa sjálfir verið að eyða og þurfa nú að draga saman neyslu og borga skuldir. Fjárfestingin fer því út um þúfur. Þá tekur við niðursveifla þegar hagkerfið þarf að leiðrétta sig fyrir hinum röngu skilaboðum. Hefði húsnæðisbólan á Íslandi verið fjármögnuð með sparnaði en ekki peningamagns útþenslu væri nú fjöldi manns sem hefði ráð á að kaupa það húsnæði sem byggt var á uppgangs tímanum.
Sú hugmyndafræði að niðurgreiða vexti með verðbólgu veldur því reglulegum upp og niðursveiflum með tilheyrandi sóun og firringu.
Verði þetta kerfi ekki afnumið er morgunljóst að þegar við höfum unnið okkur út úr því efnahagsástandi sem nú ríkir mun partýið hefjast á ný. Þegar það byrjar mun því verða haldið fram að upp hafi risið nýtt og betra hagkerfi þar sem ekkert þarf að framleiða, aðeins að færa pappíra milli herbergja. Í því ástandi mun einginn nenna að hlusta á úrtölumenn og nöldrara þangað til allt fer á hliðina.

Völdin
Thomas Jefferson 3. forseti bandaríkjanna og einn af þeim sem sömdu stjórnarskrána barðist gegn yfirráðum bankanna yfir peningunum lét hafa þetta eftir sér.

"Það er mín skoðun að bankar séu hættulegri frelsi okkar en óvinveittir herir. Leyfi Bandaríkjamenn eitthverntíma bönkum í einkaeigu að stjórna útgáfu peninga munu þeir ásamt fyrirtækjunum sem byggjast upp í kringum þá taka til sín allar eigur fólksins með því að auka og minnka peningamagnið á víxl, þar til börnin okkar vakna upp heimilislaus í landinu sem forfeður þeirra byggðu. Útgáfu peninga verður að taka úr höndum bankanna og setja í hendur fólksins þar sem hún á réttilega heima."

Hann reyndist sannspár því að í dag ræður 1% Bandaríkjamanna 2/3 hlutum verðmætanna í landinu og upp spretta tjaldbúðir heimilislauss fólks.

Pólitíkin
Það fyrirkomulag peningamála sem hér er fjallað um samræmist hvorki pólitískri hugmyndafræði til vinstri eða hægri.
Þar sem kapítalismi er fyrirkomulag sem byggir á eignarrétti og eikarekstri og gengur út á að framleiða og hafa hagnað af starfseminni, sem aftur er fjárfest fyrir frekari arð, getur sú starfsemi að lána út peninga sem búnir eru til úr engu í skjóli ríkisins tæplega samræmst þeirri hugmyndafræði. Bankakerfi í þessari mynd getur ekki starfað án stuðnings ríkisins sem sést kannski best á því hér að þegar það var orðið of stórt fyrir ríkið hrundi það til grunna. Og hinir fölsku riddarar hins frjálsa markaðar komu svo skuldum sínum yfir á ríkissjóð, enda á sósjalnum allann tímann.
Í klassískri sósíalískri hugmyndafræði er fjallað um auðvaldið sem í krafti auðsins stjórnar samfélaginu gegnum ríkisvaldið í eigin þágu. Í þessari hugmyndafræði er þó gert ráð fyrir því að auðvaldið þurfi að framleiða verðmæti, að það eigi framleiðslutækin. Það auðvald sem hér um ræðir stundar á hinn bóginn það að búa til peninga úr engu, lána þá út og heimta vexti. Þetta auðvald er auðvitað hið raunverulega auðvald í heiminum í dag. Það væri skrítin vinstristjórn sem með bankakerfið í hendi sér nýtti ekki tækifærið og afnæmi heimild þess til að auka peningamagnið
Pólitísk hugmyndafræði ætti því ekki að standa í vegi fyrir að afnema þetta kerfi og ekki dugar að segja að kerfið sé við líði í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við þar sem það er hrunið þar líka.

Aðrar leiðir
Verði þetta fyrirkomulag afnumið eru í fljótu bragði tvær leiðir færar.
Hægt er að hafa stjórn peningamála í höndum ríkisins og líta á útþenslu peningamagns sömu augum og skattheimtu. Vilji ríkið auka peningamagn í umferð verði þeim peningum varið í almannaþágu og almenningur fái tjónið af verðminni peningum bætt í betri samgöngum og almannaþjónustu. Þetta fyrirkomulag er einnig lýðræðislegt að því gefnu að hér sé sæmilega lýðræðislegt fyrirkomulag.
Hinsvegar er hægt er að taka upp vörugjaldmiðil þar sem peningar eru gefnir út sem ávísun á þá vöru sem gjaldmiðillinn er byggður á. Kosturinn er sá að ekki er hægt að auka peningamagnið án þess að framleiða eða kaupa þá vöru sem lögð er til grundvallar. Þessar vörur eru yfirleitt gull eða silfur. Vandinn er hinsvegar sá að erfitt er að taka upp slíkann gjaldmiðil í einu skrefi og hér á landi er hvorki framleitt gull né silfur. Hinsvegar er sjálfsagt að gera gull og silfur að löglegum gjaldmiðli við hliðina á krónunni. Þannig gæti fólk varið sig gegn lélegri hagsstjórn og gengissveiflum auk þess sem þetta fyrirkomulag myndi veita ríkinu aðhald.

Það er eins með verðbólgudrauginn og aðra drauga, hann leggst á þá sem á hann trúa. Aðrir draugar í Íslandssögunni týndu fljótlega tölunni eftir að rafmagnið kom. Það sama gildir um þennann, það þarf bara að kveikja á perunni.




Endir íslamófóbíu

Í Rambo 3 fer Rambo til Afganistan að hlutast þar til um mál. Þar gengur hann til liðs við andspyrnumenn og saman ganga þeir til bardaga við hina illu Sovétmenn. Sjaldan hafa jafn göfugir menn verið kynntir til leiks á hvíta tjaldinu og andspyrnumenn í Afganistan, þeir eru bæði réttlátir menn og heimspekingar. Myndin er gerð árið 1988 og á þeim tíma var okkur ætlað að hafa lítilega aðrar hugmyndir um heiminn en í dag. Í vestrænum fjölmiðlum voru Saddam Hussein, Suharto og Gulbuddin Hekmatyar (stríðsherra í Afganistan) hófsamir meðan Nelson Mandela var hryðjuverkamaður. Í dag er Mandela friðarverðlaunahafi Nóbels meðan hinir eru drullusokkar, og göfugmennin sem Rambó hitti í Afganistan eru mestu ómenni sem gengið hafa á jörðinni.

Fjölmiðlar
Út frá siðferðilegum forsendum kunna þessi umskipti að virðast nokkuð geðklofin en út frá hagsmunum ekki, og það eru hagsmunirnir sem ráða. Það þarf ekki að fylgjast lengi með vestrænum fjölmiðlum til að komast að því að þeir eru einkum endurvarpsstöðvar hagsmunaaðila þó svo að þeim séu ekki miðstýrt eða þeir ritskoðaðir af yfirvöldum. Þeir endurspegla pólitíska hagsmuni vegna þess að ritstjórar þurfa að lúta vilja eigenda og auglýsenda og fréttamenn þurfa að lúta vilja ritstjóra, og einnig vegna mannlegra breyskleika sem koma fram í stofnanakúltúr, hjarðhyggju og kokteilboðamennsku. Það má ímynda sér að áróðursmeistarar Sovétríkjanna hafi velt því fyrir sér hvernig vestrænum kollegum þeirra hafi tekist að gera ofstækismenn í Afganistan að baráttumönnum frelsisins, en Sovétmenn höfðu dregist afturúr í áróðurstækni á þessum tíma eins og svo mörgu öðru og héldu sig við ritskoðun sem með tímanum þjálfar fólk í að lesa milli línana og drepur trúverðugleika.
Í vestrænum fjölmiðlum er það ekki sagt berum orðu að múslimar séu vondir, og það er stundum tekið fram að þeir séu það alls ekki. Heldur er er höfðað til tilfinninga ekki ósvipað og í kók-auglýsingu þar sem fallega fólkið hleypur eftir ströndinni og drekkur kók. Þó allir viti að maður verður feitur og bólóttur af því að drekka mikið af sykruðum gosdrykkjum þá skilur auglýsingin eftir þá tilfinningu að gosþamb geri neytandann kynþokkafullann. Á sama hátt búa múslimar í fjölbreytilegum samfélögum sem ná frá Marokkó í vestri til Indónesíu í austri, en þegar við sjáum múslima í sjónvarpinu þá er það yfirleitt vopnaður maður í vígahug frá afmörkuðu átakasvæði.

Áróður
Því hefur verið haldið fram að íslam haldi aftur af efnahagslegri þróun, en er það svo? Ef við skoðum þau ríki Miðausturlanda þar sem íslam hefur takmarkað vægi í stjórnmálum má nefna Sýrland, Jórdaníu, og Egyptaland. Í þessum löndum ríkir efnahagsleg stöðnun og þau komast sjaldan á síður viðskiptablaðanna. Dubai á hinn bóginn er efnahagsundur Miðausturlanda. Katar, þaðan sem Aljazeera kemur, er brautryðjandi frjálsrar fjölmiðlunar í heimshlutanum og Óman hefur byggt efnahaginn á þekkingariðnaði. Í þessum ríkjum við Persaflóa spilar íslam stóra rullu í pólitík, trúboð er bannað og klæðaburður er hefðbundinn. Sú fullyrðing að íslam standi í vegi fyrir efnahagsumbótum er röfl sem stenst ekki skoðun.
Sú hugmynd að múslimar fari illa með konur byggir á því að þeir geri það af íslömskum hvötum. Nýverið var maður handtekinn í Austurríki fyrir að hafa haldið dóttur sinni faginni í kjallara sínum í aldarfjórðung og átt með henni börn. Í þessu tilfelli var sökinni beint að glæpmanninum sjálfum en ekki þjóðskipulagi Austurríkis eða kirkjunni þar. Glæpir í löndum múslima eru hinsvegar ætíð kynntir okkur sem afleiðing af íslam.

Ástæðan
Hermann Göring sagði eitt sinn: "Það er auðsótt mál að fá hvaða þjóð sem er út í stríð, það eina sem þarf að gera er að benda á utanaðkomandi óvin og saka friðarsinnanana um skort á föðurlandsást." Það þætti undrum sæta ef vestrænir herir stæðu í landvinningum í Suður-Ameríku eftir hátt í tvo áratugi af áróðri gegn múslimum. Eiginlega væru það “svik við söguna”. Það er þó ekki ástæða til að örvænta, allt er eftir bókinni.
Í stríðinu gegn hryðjuverkum hafa Vesturlandabúar verið rændir gildum sínum. Sem dæmi má nefna að ríkistjórn Íslands rak lengi flugvöll í Afganistan þaðan sem föngum er flogið til pyntinga út um allann heim, en þegar fangaflugvélarnar svo lenda á Reykjavíkurflugvelli fara ráðamenn að nöldra, en þeim er slétt sama um pyntingar, svo lengi sem þeir þurfa ekki að heira öskrin. Í samfélagi sem ekki hefur lengur nein gildi grípur um sig óöryggi og menn fara að óttast hópa innan þess sem hafa sterk gildi, ekki ósvipað og maður með litla sjálfsvirðingu óttast umhverfi sitt.

Endirinn
Íslamófóbía er til komin vegna hagsmuna og vegna þeirra mun hún einnig út fara. Pólitísku markmiðin hafa ekki náðst vegna þess að planið var illa útfært og hernaðurinn enn verr. Keppinautarnir hafa eflst og eru farnir að láta til sín taka og verkfærið, íslamófóbía, hefur snúist í höndum eigandans og er nú notað gegn honum.
Keppinautarnir eru fyrst og fremst Rússland og Kína, saman og sitt í hvoru lagi. Þann tíma, sem á Vesturlöndum hefur farið í að tala um "gjá" milli vesturlanda og Íslam, hafa Rússar nýtt sér til að styrkja stöðu sína í löndum múslima. Rússneska ríkið hefur opnað sjónvarpsstöð á arabísku og sækist eftir sæti í samíslömskum samtökum. Rússar halda uppi stjórnmálasambandi við Hamas og Hezbollah til að vinna hug og hjörtu múslima og aðgreina sig frá Vesturlöndum. Frá Kreml koma yfirlýsingar eins og "enginn fær að spilla náinni vináttu Rússa og hins Íslamska heims", til að gera út á vestræna íslamófóbíu og styrkja þannig stöðu sína. Í dag eiga Rússar góð pólitísk samskipti við öll ríki Miðausturlanda, og selja bandamönnum sínum hátæknivopn sem auka pólitískan hreyfanleika þeirra. Rússar eru annar stærsti olíuútflytjandi heims og náin samvinna þeirra við OPEC ríkin þýðir yfirráð yfir mikilvægustu og eftirsóttustu vöru á heimsmarkaði.
Í mörgum ríkjum Miðausturlanda eru ríkisstjórnir álitnar leppstjórnir vesturlanda og náin samvinna við ríki sem álitin eru í krossferð gegn íslam ekki fýsilegur kostur fyrir valdhafana. Þegar nýr kóngur tók við í Sádíarabíu var hans fyrsta opinbera heimsókn til Kína. Sádíarabía hefur lengi verið einn helsti bandamaður BNA á svæðinu en í dag vinna Kínvarjar olíusamninga þar á kostnað vestrænna fyrirtækja.
Tyrkland gott dæmi um skaðsemi íslamófóbíu fyrir vestræna hagsmuni því eftir að hún keyrði um þverbak hrundi stuðningur Tyrkja við aðild að Evrópusambandinu sem lengi hafði verið yfirgnæfandi. Það skal haft í huga að Evrópusambandið hefur m.a. þann tilgang að auka völd lykilríkja þess í heiminum. Tyrkland er gríðarlega mikilvægt í pólitískum skilningi því það liggur á mótum Evrópu, Miðausturlanda og Rússlands, í landinu búa um 80 miljónir manna og það hefur eitthver mestu hernaðarútgjöld í Evrópu. Ríki Mið-Asíu eru menningarlega tengd Tyrklandi og þau hafa sóst þar eftir áhrifum. Ríki Mið-Asíu eru hinsvegar á bandi Rússa og Kínverja og hlaupist Tyrkir undan merkjum er augljóst í fangið á hverjum þeir fara.
Ríki múslima sem telja um 1500 miljónir manna eru farin að færast undan áhrifum vesturlanda til nánari samvinnu við keppinautana. Íslamófóbía er því orðin munaðarvara sem Vesturlönd hafa hvorki pólitískt né efnahagslega efni á. Þegar staðan rennur upp fyrir valdhöfum á Vesturlöndum verður íslamófóbía blásin af, og ef eitthvað er að marka söguna verður nýr óvinur fundinn í staðinn.

Fall bandaríska heimsveldisins

Heimsveldi byggir á efnahagslegum, pólitískum og hernaðarlegum styrk. Í dag er þessum stoðum bandaríska heimsveldisins ógnað, og þá sérstaklega hinni efnahagslegu, sem reyndar er undirstaða hinna tveggja. Þeir kraftar sem grafa undan stöðu bandaríska heimsveldisins eru orðnir það sterkir að það fær ekki haldið stöðu sinni. Á næstu árum mun valdamiðja heimsins færast hratt til austurs og Rússland og Kína verða lykilríki. Dollarinn mun lækka jafn og þétt og missa stöðu sína sem helsti gjaldmiðill heims og “austrið” sem bandalag tekur á sig skýrari mynd.

Til að skilja þá stöðu sem komin er upp er rétt að skoða söguna. Í byrjun áttunda áratugarins var dollarinn tengdur gulli sem takmarkaði peninga prentun og hagnaður bandarískra fyrirtækja kom að mestu leyti af framleiðslu en ekki hlutabréfum. Olíuviðskipti heimsins byggðust á tvíhliðasamningum í þeim gjaldmiðli sem samningsaðilar komu sér saman um.
Nixon batt árið 1970 enda á tengingu dollarans við gull en atburðir stuttu seinna áttu eftir að tengja hann við olíu í staðinn. Í kjölfarið á olíukreppunni á 8. áratugnum voru settir upp olíumarkaðir í New York og London sem með tímanum hafa séð um stærstan hluta olíuviðskipta í heiminum auk þess sem gerðir voru leynilegir samningar við Sádí-Arabíu um að olía OPEC ríkjanna yrði seld í dollurum og að hagnaðinum væri svo fjárfest á hlutabréfamarkaði í BNA og Bretlandi.
Þessar breytingar gerðu það mögulegt að auka magn dollara í umferð án þess að valda teljandi verðbólgu þar sem stöðug eftirspurn var eftir honum. Bandaríska hagkerfið var talið sterkt, dollarinn var olíugjaldmiðill. Dollararnir sem enduðu í höndunum á olíuframleiðendum voru notaðir til fjárfestinga á bandaríska hlutabréfamarkaðnum. Þetta kerfi hefur verið kallað “dollaraendurvinnslukerfið”. Afleiðingin varð sú að hlutabréfamarkaðurinn tók völdin í hagkerfinu og hvatti til skammtíma gróða frekar en langtíma fjárfestinga. Smám saman hefur staðan orðið sú að stærstur hluti hagnaðar fyrirtækja kemur af hlutabréfaviðskiptum meðan hagnaður af framleiðslu hefur farið minkandi. Samhliða alþjóðavæðing hefur þetta orðið til þess að framleiðsla hefur  verið flutt úr landi. Bandaríkin eru því orðin háð erlendum lánum, erlendu innstreymi fjármagns og erlendum innflutningi. Í dag stendur neysla fyrir 70% af þjóðarframleiðslu og hagkerfið þarf 800 miljarða dollara innstreymi á dag.

Rússland og Kína

Hagsmunir þessara ríkja eru bundnir saman af tveim kröftum. Kína er framleiðsluríki sem þarf á hráefnum að halda á meðan Rússland er hráefnaútflytjandi og ríkin hafa skilgreint utanríkis- og hernaðarstefnu Bandaríkjanna sem sameiginlega ógn. Allt frá 1994 hafa Kína og Rússland sent frá sér sameiginlegar yfirlýsingar um að heimurinn skuli lúta alþjóðalögum og ekki vera stjórnað af einu stórveldi. Loftárásir NATO á Serbíu og hernaðar stefna Bush stjórnarinnar hafa orðið til að styrkja þá sýn að mótvægi við Bandaríkin sé nauðsynlegt. Mörg önnur ríki deila þessari sýn.

Efnahagsmál

Vegna gríðarlegra skulda, viðskipta og fjárlagahalla Bandaríkjanna, hefur dollarinn verið að falla og fjárfestar eru farnir að missa trúna á hann. Fall dollarans hefur ekki styrkt útflutning og minnkað innflutning til muna þar sem svo mikið af framleiðslunni er farið úr landi. Síðan tengingin við gull var afnumin hefur bandaríska hagkerfið einkennst af bólum sem síðan springa og sú næsta tekur við. Það má líta á þessar bólur sem afmarkaða verðbólgu og kerfið getur gengið svo lengi að verðbólgan dreifi sér ekki. Síðasta bólan var húsnæðisbólan sem komið var af stað með lágum vöxtum og peningaprentun.  Þegar olíuverð tók að hækka hélt seðlabankastjóri Bandaríkjanna því fram að hækkunin væri tímabundin og peningaprentun hélt áfram. Olíuverð hélt áfram að hækka, húsnæðisbólan er sprungin og hagkerfið staðnað. Olíuverðshækkunin hefur valdið verðbólguþrýstingi sem kemur í veg fyrir að hægt sé örva hagkerfið með innspýtingu fjármagns og peningamagnsaðgerðir til að draga úr verðbólgunni myndu valda kreppu. Það sem gerir stöðuna enn verri er að bandaríkin hafa framselt völdin yfir gjaldmiðlinum með skuldasöfnun og þau hafa aldrei haft jafn lítil völd yfir olíumörkuðum.

Ríki Asíu ásamt Rússlandi halda stærstu gjaldeyrisforðabirgðir heims og stærstur hlutinn er í dollurum. Árið 2006 tilkynnti seðlabanki Rússlands að hann hefði þegar endurskipulagt byrgðir sínar og þær væru nú 50% dollarar, 40% evrur og 10% gull og silfur. Að ná dollara hlutfallinu niður í 50% er mikilvægt því að þegar hann verðfellur hækka aðrir gjaldmiðlar á móti og ríkið  verður ekki fyrir tapi. Seðlabankar í Asíu sem einnig vildu losa sig við dollara sáu fram á að dollarinn hryndi ef þau tilkynntu breytingu á samsetningu gjaldeyrisforðans og minnkuðu því kaup á dollara og hófu að kaupa aðra gjaldmiðla til að minnka hlutfall dollarans.
Olíuútflytjendur hafa orðið af tekjum vegna lækkunnar dollarans og hafa áhuga á að skipta um gjaldmiðil í olíuviðskiptum. Á nýliðnum OPEC fundi lögðu Íranir til að bandalagsríkin hættu verslun með olíu í dollurum. Venesúela studdi tillöguna en önnur OPEC ríki komu í veg fyrir að tillagan kæmi til umræðu. Á fundinum hafði gleymst að slökkva á míkrafóni þegar fulltrúi Sádí-Arabíu útskýrði afstöðu sína til málsins, “við viljum ekki að dollarinn hrynji án þess að það gagnist OPEC”. Það má því leiða líkum að því að ríki OPEC vilji kaupa tíma til að færa gjaldeyrisforðann úr dollara og losa um fjárfestingar í Bandaríkjunum.

Í olíuviðskiptum er að ryðja sér til rúms nýtt olíusölukerfi, runnið undan rifjum Rússa, með stuðningi Asíuríkja. Pútín Rússlandsforseti hefur kallað þetta kerfi “orkuöryggi”. Kerfið byggir á langtíma samningum og gagnkvæmum fjárfestingum. Ríkið sem kaupir olíu fjárfestir í olíuleit og vinnslu í olíusölu ríkinu sem aftur fjárfestir í ríkinu sem kaupir. Fjárfesting í olíuleit og vinnslu er því tryggð en olíunni hefur þegar verið ráðstafað og því verða minni líkur á verðsveiflum. Eftir því sem tvíhliða samningar aukast, minnkar framboð á olíumarkaðina og þeir verða óstöðugri og dýrari. Samningarnir eru ekki gerðir í dollurum og því mun erftirspurn eftir þeim minnka.

Margar þjóðir eru mjög skuldugir við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þar sem skuldir eru í dollurum. Við getum tekið Indónesíu sem dæmi þar sem herforingjastjórn Suharto safnaði 126 miljarða dollara skuldum við gjaldeyrissjóðinn. Ríki í þessari stöðu hafa ríka hagsmuni af því að dollarinn falli og útflutningurinn fari yfir í aðra hækkandi gjaldmiðla.

Það ferli að skipta dollaranum út sem helsta gjaldeyrisforða- og viðskiptagjaldmiðli heims er í fullum gangi bak við tjöldin, og þau ríki sem að því standa hafa kosið þá leið til að minka skaða sinn sem mest af umbreytingunni. Rússland og Kína eru keppinautar Bandaríkjanna um völd í heiminum og önnur lönd í þessu spili líta á BNA sem helstu ógn við þjóðaröryggi sitt. Ferlið er því ekki síður knúið af pólitískum hagsmunum en efnahagslegum.

Hernaðarlega stoðin

Bandaríkjaher hefur herstöðvar í 130 löndum og tíu flotadeildir með flugmóðurskipum og getur því látið til skarar skríða hvar sem er í heiminum. Ógnin er fólginn í því að geta lagt efnahagskerfi ríkja í rúst með stuttum loftárásum og að geta beitt fjölmiðlum til að réttlæta hernaðinn. Aðferðin krefst þess að hafa pólitískann styrk til að einangra fórnarlömbin og að hafa yfirburði í lofti. Sé það ekki fyrir hendi er hætta á að almenningur snúist gegn hernaðinum og átökin breiðist út og grípa þurfi til landhernaðar. Vegna efnahagslegra veikleika og ófaranna í Írak hafa Bandaríkin ekki lengur nægan pólitíska styrk til að einangra ríki. Þar að auki eru komin fram fullkomin loftvarnarkerfi sem geta grandað stýriflaugum og torséðum flugvélum sem takmarka yfirburði í lofti og helstu andstæðingar Bandaríkjanna ráða þegar yfir slíkum kerfum.

Pólitík

Eftir að Varsjárbandalagið var lagt niður var NATO fundið nýtt hlutverk. Hafin var endurskipulagning með það að markmiði að bandalagið gæti látið til sín taka hvar sem er í heiminum. Markmiðið var að skapa NATO stöðu alþjóðalögreglu og nota banalagið til að verja hagsmuni leiðandi ríkja þess um allan heim. Ófarirnar í Afganistan og vangeta bandalagsins til að leysa Kosovodeiluna hafa hinsvegar rýrt traust á bandalaginu svo mjög að aðildarríki þess hafa misst trúna á árangur í Afganistan. Hvert sem litið er í heiminum eru pólitísk áhrif BNA á undanhaldi. Í austur Asíu eru afskipti þeirra af málefnum Norður Kóreu talin spilla fyrir, meðan Kína og Rússland álitnir ábyrgir aðilar að málinu. Í Mið-Asíu hafa BNA tapað hinum mikla leik í hendurnar á Rússum og Kínverjum. Það þarf varla að fara mörgum orðum um stöðuna í Mið-Austurlöndum. Stjórnstöð bandaríkjahers í Afríku er enn í Þýskalandi þar sem ekkert Afríkuríki vill taka við henni. Í Suður-Ameríku eiga BNA fáa stuðningsmenn en töluvert af óvinum og bandamenn BNA í Evrópu eru hikandi.

Niðurstaða
Hér er einungis farið stuttlega yfir þá krafta sem grafa undan stöðu heimsveldisins. Með falli þess eiga eftir að verða miklar breytingar sem munu skapa þeim tækifæri sem átta sig á þeim en skaða hina.
Íslendingar verða að taka mið af þeim breytingum sem framundan eru. Mikilvægust er staða dollarans og mögulegt hrun hans. Seðlabankinn þarf að taka mið af þessu í samsetningu gjaldeyrisforðans. Skynsamlegt er fyrir fyrirtæki að fylgjast vel með bandaríkjamarkaði og leitast við að hafa skuldir í dollururum og tekjur í öðrum gjaldmiðlum. Greina þarf þá markaði sem verða fyrir minnstum áhrifum af sigi dollarans og vinna þar markaði. Hagkerfi Asíu eru ekki jafn háð útflutningi til BNA og margir ætla og því ber að líta þangað. Rétt er að líta til Rússlands þar sem það hagkerfi er nær ónæmt fyrir falli dollarans auk þess sem landið er nálægt og Íslendingar hafa langa sögu af viðskiptum þar. Tryggja þarf aðgang að olíu á stöðugu verði með tvíhliðasamningum til að forðast þann óstöðugleika sem framundan er á olíumörkuðum.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband