Fall bandaríska heimsveldisins

Heimsveldi byggir á efnahagslegum, pólitískum og hernaðarlegum styrk. Í dag er þessum stoðum bandaríska heimsveldisins ógnað, og þá sérstaklega hinni efnahagslegu, sem reyndar er undirstaða hinna tveggja. Þeir kraftar sem grafa undan stöðu bandaríska heimsveldisins eru orðnir það sterkir að það fær ekki haldið stöðu sinni. Á næstu árum mun valdamiðja heimsins færast hratt til austurs og Rússland og Kína verða lykilríki. Dollarinn mun lækka jafn og þétt og missa stöðu sína sem helsti gjaldmiðill heims og “austrið” sem bandalag tekur á sig skýrari mynd.

Til að skilja þá stöðu sem komin er upp er rétt að skoða söguna. Í byrjun áttunda áratugarins var dollarinn tengdur gulli sem takmarkaði peninga prentun og hagnaður bandarískra fyrirtækja kom að mestu leyti af framleiðslu en ekki hlutabréfum. Olíuviðskipti heimsins byggðust á tvíhliðasamningum í þeim gjaldmiðli sem samningsaðilar komu sér saman um.
Nixon batt árið 1970 enda á tengingu dollarans við gull en atburðir stuttu seinna áttu eftir að tengja hann við olíu í staðinn. Í kjölfarið á olíukreppunni á 8. áratugnum voru settir upp olíumarkaðir í New York og London sem með tímanum hafa séð um stærstan hluta olíuviðskipta í heiminum auk þess sem gerðir voru leynilegir samningar við Sádí-Arabíu um að olía OPEC ríkjanna yrði seld í dollurum og að hagnaðinum væri svo fjárfest á hlutabréfamarkaði í BNA og Bretlandi.
Þessar breytingar gerðu það mögulegt að auka magn dollara í umferð án þess að valda teljandi verðbólgu þar sem stöðug eftirspurn var eftir honum. Bandaríska hagkerfið var talið sterkt, dollarinn var olíugjaldmiðill. Dollararnir sem enduðu í höndunum á olíuframleiðendum voru notaðir til fjárfestinga á bandaríska hlutabréfamarkaðnum. Þetta kerfi hefur verið kallað “dollaraendurvinnslukerfið”. Afleiðingin varð sú að hlutabréfamarkaðurinn tók völdin í hagkerfinu og hvatti til skammtíma gróða frekar en langtíma fjárfestinga. Smám saman hefur staðan orðið sú að stærstur hluti hagnaðar fyrirtækja kemur af hlutabréfaviðskiptum meðan hagnaður af framleiðslu hefur farið minkandi. Samhliða alþjóðavæðing hefur þetta orðið til þess að framleiðsla hefur  verið flutt úr landi. Bandaríkin eru því orðin háð erlendum lánum, erlendu innstreymi fjármagns og erlendum innflutningi. Í dag stendur neysla fyrir 70% af þjóðarframleiðslu og hagkerfið þarf 800 miljarða dollara innstreymi á dag.

Rússland og Kína

Hagsmunir þessara ríkja eru bundnir saman af tveim kröftum. Kína er framleiðsluríki sem þarf á hráefnum að halda á meðan Rússland er hráefnaútflytjandi og ríkin hafa skilgreint utanríkis- og hernaðarstefnu Bandaríkjanna sem sameiginlega ógn. Allt frá 1994 hafa Kína og Rússland sent frá sér sameiginlegar yfirlýsingar um að heimurinn skuli lúta alþjóðalögum og ekki vera stjórnað af einu stórveldi. Loftárásir NATO á Serbíu og hernaðar stefna Bush stjórnarinnar hafa orðið til að styrkja þá sýn að mótvægi við Bandaríkin sé nauðsynlegt. Mörg önnur ríki deila þessari sýn.

Efnahagsmál

Vegna gríðarlegra skulda, viðskipta og fjárlagahalla Bandaríkjanna, hefur dollarinn verið að falla og fjárfestar eru farnir að missa trúna á hann. Fall dollarans hefur ekki styrkt útflutning og minnkað innflutning til muna þar sem svo mikið af framleiðslunni er farið úr landi. Síðan tengingin við gull var afnumin hefur bandaríska hagkerfið einkennst af bólum sem síðan springa og sú næsta tekur við. Það má líta á þessar bólur sem afmarkaða verðbólgu og kerfið getur gengið svo lengi að verðbólgan dreifi sér ekki. Síðasta bólan var húsnæðisbólan sem komið var af stað með lágum vöxtum og peningaprentun.  Þegar olíuverð tók að hækka hélt seðlabankastjóri Bandaríkjanna því fram að hækkunin væri tímabundin og peningaprentun hélt áfram. Olíuverð hélt áfram að hækka, húsnæðisbólan er sprungin og hagkerfið staðnað. Olíuverðshækkunin hefur valdið verðbólguþrýstingi sem kemur í veg fyrir að hægt sé örva hagkerfið með innspýtingu fjármagns og peningamagnsaðgerðir til að draga úr verðbólgunni myndu valda kreppu. Það sem gerir stöðuna enn verri er að bandaríkin hafa framselt völdin yfir gjaldmiðlinum með skuldasöfnun og þau hafa aldrei haft jafn lítil völd yfir olíumörkuðum.

Ríki Asíu ásamt Rússlandi halda stærstu gjaldeyrisforðabirgðir heims og stærstur hlutinn er í dollurum. Árið 2006 tilkynnti seðlabanki Rússlands að hann hefði þegar endurskipulagt byrgðir sínar og þær væru nú 50% dollarar, 40% evrur og 10% gull og silfur. Að ná dollara hlutfallinu niður í 50% er mikilvægt því að þegar hann verðfellur hækka aðrir gjaldmiðlar á móti og ríkið  verður ekki fyrir tapi. Seðlabankar í Asíu sem einnig vildu losa sig við dollara sáu fram á að dollarinn hryndi ef þau tilkynntu breytingu á samsetningu gjaldeyrisforðans og minnkuðu því kaup á dollara og hófu að kaupa aðra gjaldmiðla til að minnka hlutfall dollarans.
Olíuútflytjendur hafa orðið af tekjum vegna lækkunnar dollarans og hafa áhuga á að skipta um gjaldmiðil í olíuviðskiptum. Á nýliðnum OPEC fundi lögðu Íranir til að bandalagsríkin hættu verslun með olíu í dollurum. Venesúela studdi tillöguna en önnur OPEC ríki komu í veg fyrir að tillagan kæmi til umræðu. Á fundinum hafði gleymst að slökkva á míkrafóni þegar fulltrúi Sádí-Arabíu útskýrði afstöðu sína til málsins, “við viljum ekki að dollarinn hrynji án þess að það gagnist OPEC”. Það má því leiða líkum að því að ríki OPEC vilji kaupa tíma til að færa gjaldeyrisforðann úr dollara og losa um fjárfestingar í Bandaríkjunum.

Í olíuviðskiptum er að ryðja sér til rúms nýtt olíusölukerfi, runnið undan rifjum Rússa, með stuðningi Asíuríkja. Pútín Rússlandsforseti hefur kallað þetta kerfi “orkuöryggi”. Kerfið byggir á langtíma samningum og gagnkvæmum fjárfestingum. Ríkið sem kaupir olíu fjárfestir í olíuleit og vinnslu í olíusölu ríkinu sem aftur fjárfestir í ríkinu sem kaupir. Fjárfesting í olíuleit og vinnslu er því tryggð en olíunni hefur þegar verið ráðstafað og því verða minni líkur á verðsveiflum. Eftir því sem tvíhliða samningar aukast, minnkar framboð á olíumarkaðina og þeir verða óstöðugri og dýrari. Samningarnir eru ekki gerðir í dollurum og því mun erftirspurn eftir þeim minnka.

Margar þjóðir eru mjög skuldugir við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þar sem skuldir eru í dollurum. Við getum tekið Indónesíu sem dæmi þar sem herforingjastjórn Suharto safnaði 126 miljarða dollara skuldum við gjaldeyrissjóðinn. Ríki í þessari stöðu hafa ríka hagsmuni af því að dollarinn falli og útflutningurinn fari yfir í aðra hækkandi gjaldmiðla.

Það ferli að skipta dollaranum út sem helsta gjaldeyrisforða- og viðskiptagjaldmiðli heims er í fullum gangi bak við tjöldin, og þau ríki sem að því standa hafa kosið þá leið til að minka skaða sinn sem mest af umbreytingunni. Rússland og Kína eru keppinautar Bandaríkjanna um völd í heiminum og önnur lönd í þessu spili líta á BNA sem helstu ógn við þjóðaröryggi sitt. Ferlið er því ekki síður knúið af pólitískum hagsmunum en efnahagslegum.

Hernaðarlega stoðin

Bandaríkjaher hefur herstöðvar í 130 löndum og tíu flotadeildir með flugmóðurskipum og getur því látið til skarar skríða hvar sem er í heiminum. Ógnin er fólginn í því að geta lagt efnahagskerfi ríkja í rúst með stuttum loftárásum og að geta beitt fjölmiðlum til að réttlæta hernaðinn. Aðferðin krefst þess að hafa pólitískann styrk til að einangra fórnarlömbin og að hafa yfirburði í lofti. Sé það ekki fyrir hendi er hætta á að almenningur snúist gegn hernaðinum og átökin breiðist út og grípa þurfi til landhernaðar. Vegna efnahagslegra veikleika og ófaranna í Írak hafa Bandaríkin ekki lengur nægan pólitíska styrk til að einangra ríki. Þar að auki eru komin fram fullkomin loftvarnarkerfi sem geta grandað stýriflaugum og torséðum flugvélum sem takmarka yfirburði í lofti og helstu andstæðingar Bandaríkjanna ráða þegar yfir slíkum kerfum.

Pólitík

Eftir að Varsjárbandalagið var lagt niður var NATO fundið nýtt hlutverk. Hafin var endurskipulagning með það að markmiði að bandalagið gæti látið til sín taka hvar sem er í heiminum. Markmiðið var að skapa NATO stöðu alþjóðalögreglu og nota banalagið til að verja hagsmuni leiðandi ríkja þess um allan heim. Ófarirnar í Afganistan og vangeta bandalagsins til að leysa Kosovodeiluna hafa hinsvegar rýrt traust á bandalaginu svo mjög að aðildarríki þess hafa misst trúna á árangur í Afganistan. Hvert sem litið er í heiminum eru pólitísk áhrif BNA á undanhaldi. Í austur Asíu eru afskipti þeirra af málefnum Norður Kóreu talin spilla fyrir, meðan Kína og Rússland álitnir ábyrgir aðilar að málinu. Í Mið-Asíu hafa BNA tapað hinum mikla leik í hendurnar á Rússum og Kínverjum. Það þarf varla að fara mörgum orðum um stöðuna í Mið-Austurlöndum. Stjórnstöð bandaríkjahers í Afríku er enn í Þýskalandi þar sem ekkert Afríkuríki vill taka við henni. Í Suður-Ameríku eiga BNA fáa stuðningsmenn en töluvert af óvinum og bandamenn BNA í Evrópu eru hikandi.

Niðurstaða
Hér er einungis farið stuttlega yfir þá krafta sem grafa undan stöðu heimsveldisins. Með falli þess eiga eftir að verða miklar breytingar sem munu skapa þeim tækifæri sem átta sig á þeim en skaða hina.
Íslendingar verða að taka mið af þeim breytingum sem framundan eru. Mikilvægust er staða dollarans og mögulegt hrun hans. Seðlabankinn þarf að taka mið af þessu í samsetningu gjaldeyrisforðans. Skynsamlegt er fyrir fyrirtæki að fylgjast vel með bandaríkjamarkaði og leitast við að hafa skuldir í dollururum og tekjur í öðrum gjaldmiðlum. Greina þarf þá markaði sem verða fyrir minnstum áhrifum af sigi dollarans og vinna þar markaði. Hagkerfi Asíu eru ekki jafn háð útflutningi til BNA og margir ætla og því ber að líta þangað. Rétt er að líta til Rússlands þar sem það hagkerfi er nær ónæmt fyrir falli dollarans auk þess sem landið er nálægt og Íslendingar hafa langa sögu af viðskiptum þar. Tryggja þarf aðgang að olíu á stöðugu verði með tvíhliðasamningum til að forðast þann óstöðugleika sem framundan er á olíumörkuðum.

Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið rosalega er þessi greining þín vel gerð.  Svo er amero á dagskránni sem "lausnin" þegar dollarinn er hruninn.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 19:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband