8.11.2023 | 09:01
Bandaríkin hrökklast frá Afganistan
(Skrifað 17. ágúst 2021)
Kaþólskur prestur sem ég þekki hér í Bishkek sagði mér að í Kabúl væru nunnur á vegum kirkjunnar. Þær eru þar að sinna börnum sem hafa slasast eða orðið munarðlaus í átökunum. Í Kabúl hefur í gegnum árin kostað um tvær miljónir að flytja einn diplómata eða starfsmann alþjóðastofnunar frá flugvellinum inn í borgina í bílalest. Þeir keyra fram hjá íbúunum sem oft eru í engum skóm og eiga lítið að borða. Nú þegar borgin fellur neita Nunnurnar að yfirgefa börnin og ætla að vera áfram. Treysta á guð. Byssumennirnir frá NATO hlaupa í burtu. Starfsmenn alþjóðastofnana taka líka til fótana. Taka með sér mávastellið og kontrabassann. Afganir fá ekki sæti í flugvélinni. Þeim virðist vera ætlað að hanga utan á henni.
Íslensk stjórnvöld hafa auðvitað stutt þennan stríðsrekstur. Þau hafa stutt öll stríð vesturlanda á þessari öld. Hundruð þúsunda hafa fallið. Heilu þjóðirnar lagðar í rúst. Miljónir á vergangi. Og við berjum okkur á brjóst fyrir að taka við tíu flóttamönnum. Auk þess að styðja stríð þá styðjum við viðskiptaþvinganir líka. Nú síðast gegn Sýrlandi. Að neita stríðshrjáðum almenningi í Sýrlandi um lyf mundi ríkisstjórnin kalla að taka þátt í aðgerðum.
Á síðustu áratugum hafa orðið ótrúlegar framfarir í heiminum. Velmegun þar sem áður var fátækt. Hungursneyðir heyra nánast sögunni til, barnadauði og ólæsi hafa farið hratt minnkandi. Nema auðvitað þar sem vesturlönd ákváðu að dreifa kærleika sínum. Stríðin hafa oftar en ekki verið réttlætt með mannúðarsjónarmiðum og af mannréttindasamtökum í sumum tilfellum. Þar er ástandið verst. Kólera, hryðjuverk, skelfing og dauði. Og allt saman óþarft.
Stundum er sagt að sigurvegararnir skrifi söguna. Í þetta skipti verður hún ekki skrifuð af vesturlandabúum. Til þess munu þeir ekki hafa trúverðugleika. Sú stefna að heyja stríð út um allan heim í nafni lýðræðis, mannréttinda og vestrænna gilda er túlkuð af stórum hluta mannkyns sem framhald af nýlendustefnunni. Byrði hvíta mannsins. Að koma barbörunum til siðmenningar. Söguskýringin verður sú að nýlendustefnunni hafi í raun ekki lokið fyrr en á 21. öldinni. Að þjóðir heims hafi loks komist til velmegunar eftir að þeim tókst að hrekja nýlenduveldin og afskipti þeirra af höndum sér. Það mun reynast Kínverjum auðvelt að selja þessa hugmynd. Að stilla upp efnahagslegum framförum á móti stríðsrekstri og viðskiptaþvingunum. Vesturlönd verða í samanburði álíka sannfærandi og Sovétríkin við fall berlínarmúrsins.
Það er ekki líklegt að vestrænir stjórnmálamenn og fjölmiðlar hafi rænu á að snúa baki við þessari stefnu. Líklegra er að þegar hún endanlega bíður skipbrot muni þeir finna sig í svipuðu andlegu ástandi og Hitler á síðustu dögum stríðsins. Veruleikafyrrtir og í mikilli geðshræringu.
íslensk stjórnvöld munu styðja stríðin fram á síðasta dag.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.