Verðbólgudraugurinn

Verðbólgudraugurinn er sá draugur sem verst hefur farið með Íslendinga. Stjórnmálamenn, verkalýðsforkólfar og hagfræðingar hafa verið duglegir við að hrista drauginn framan í allmenning í þeim tilgangi að sannfæra fólk um að allar kjarabætur til handa almenningi verði alltaf étnar upp af draugnum.

Verðbólga
Sú verðbólga sem talað er um í fréttatímunum endurspeglar almennar vöruverðhækkanir. Vöruverð ræðst af framboði og eftirspurn og með hve skilvirkum hætti vara er framleidd. Til dæmis lækka tölvur sífelt í verði vegna aukinnar skilvirkni meðan olía hækkar vegna aukinnar eftirspurnar.
Ef sú verðbólga sem verið hefur hér allt frá ómunatíð stafaði af verðhækkunum myndi það þýða að við hefðum búið við viðvarandi vöruskort og afturför í framleiðslutækni.
Hægt er að líta á verðbólgu annarsvegar út frá verðlagi og hinsvegar út frá peningamagni. Ef við ímyndum okkur lokað hagkerfi þar sem aðeins ein vara er í boði og peningamagn er aukið um 10% á sama tíma og framleiðni eykst um 10% myndum við út frá verðlagi segja að verðbólgan hafi verið 0% en út frá peningamagni 10%. Þetta þýðir að þó svo að mæld verðbólga sé 0% getur maður sem ekki nýtur góðs af hinu aukna peningamagni verið rændur um þær verðlækkanir sem aukin skilvirkni í hagkerfinu myndi annars skila honum.
Það kostar ekki mikið að prenta fimmþúsundkall og enn minna að búa hann til á tölvuskjá, en hvernig geta þá peningar sem búnir eru til úr engu fengið verðgildi? Þeir gera það í krafti þess að slíkir peningar eru þegar í umferð og eru viðurkenndir. Hinir nýju peningar draga því verðgildi sitt af þeim peningum sem þegar eru í umferð og rýra því kaupmátt gjaldmiðilsins. Af þessari ástæðu þykir peningafals ekki göfug starfsemi og má þá einu gilda hvort gerandinn er bófi eða banki.
Verðbólgan sem við búum við er peningamagnsverðbólga og það má segja að við séum blekkt til að halda að kaupmáttur okkar aukist við að fá hærri laun og að þeir sem ráða peningamagninu hafi völd yfir skilningi okkar á eigin efnahag og þar með stórum hluta tilveru okkar.

Ættir draugsins raktar
Undir því fyrirkomulagi peningamála sem við búum við eykst peningamagnið í gegnum bankakerfið. Það gengur þannig fyrir sig að ef lagður er þúsundkall inn í banka og bindiskylda er 10% þá getur bankinn lánað út 900 kr, þær enda svo iðulega í öðrum banka sem þarf að leggja 10% til hliðar og lánar út restina og svo koll af kolli þangað til að þúsundkallinn í upphafi er orðinn að tíuþúsundkalli. Galdurinn er sá að bankinn telur sömu krónuna tvisvar, sem inn og útlán. Peningar í umferð eru þeir peningar sem hægt er að grípa til með stuttum fyrirvara og bjóða á móti þeirri vöru og þjónustu sem í boði er. Þar sem þeir peningar í bankakerfinu sem liggja á opnum reikningum eru ekki allir teknir út í einu getur bankinn í krafti veltunnar boðið sömu krónuna tvisvar.
Sú hætta er alltaf fyrir hendi að allir eða óvenju margir innistæðueigendur taki peningana sína út á sama tíma og bankinn geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Það má segja að bankinn sé í raun á hverjum tíma tæknilega gjaldþrota og lofi bankinn að afgreiða fé sem hann getur ekki afgreitt má segja að um sviksamlega starfsemi sé að ræða.
Það fyrirkomulag hefur því komist á að ríkið tryggi innistæður og sjái bankanum fyrir auðveldu aðgengi að fé gegnum seðlabanka til að þetta kerfi geti haldið sjó. Með þessu gerir ríkið bönkunum mögulegt að auka peningamagn í umferð langt umfram það sem annars væri mögulegt.
Fyrir sinn snúð fær svo ríkið tæki til að hafa áhrif á efnahagskerfið með stýrivöxtum og byndiskyldu.
Þar sem bankarnir eru háðir ríkinu og hagstjórnar tæki ríkisins liggja gegnum bankakerfið myndast hálfgert hjónaband þeirra á milli. Niðurstaðan er sú að vegna ríkisstuðnings verða bankarnir áhættusæknir og ríkið fer að líta á bankakerfið sem undirstöðu efnahagskerfisins sem það mun verja í lengstu lög til að tryggja áhrif sín í efnahagskerfinu.
Seðlabanki hefur það hlutverk að halda verðbólgu innan ákveðinna marka og til að uppfylla þá skyldu sína hefur hann tvö tæki, stýrivextii og bindiskyldu. Séu stýrivextir hækkaðir munu almennir vextir hækka og útlánum því fækka sem aftur hemur útþenslu peningamagns og þar með verðbólgu. Sé byndiskylda aukin minnka margföldunaráhryfin í bankakerfinu og þar með verðbólgan. Það má því segja að það sé opinberlega viðurkennt hvaðan verðbólgan á rætur sínar þó svo að almenningur sé látinn halda að hún stafi af verð og launahækkunum.
Röksemdafærslan fyrir því að auka peningamagn í umferð er sú að verðhjöðnun sé af hinu illa því að þá hafi menn tilhneigingu til að ávaxta peningana undir koddanum frekar en að fjárfesta þeim. Það fyrirkomulag að auka peningamagn í gegnum bankakerfið er svo rökstutt með því að með þeim hætti sé hægt að halda vöxtum niðri þar sem að aðgangur að ódýru lánsfé sé mikilvægur. Það má því segja að sett hafi verið upp kerfi sem niðurgreiðir vexti með verðbólgu.

Kjarabarátta

Ef við setjum fram einfalda fullyrðingu: Þeir sem hafa lág laun eru í þeirri stöðu vegna þess að það er meira framboð en eftirspurn eftir þeirra starfskröftum og þeir eiga erfitt með að flytja sig yfir í betur borguð störf. Þetta getur til dæmis stafað af einhæfri þekkingu eða búsetu.
Við getum tekið dæmi af litlu byggðarlagi úti á landi þar sem er staðbundin efnahagslægð. Fólkið á þessum stað á erfitt með að flytja burt þar sem það getur ekki selt eignir sínar og ekki er hægt að fá lán til atvinnu uppbyggingar. Verðbólgan bitnar engu að síður á fólkinu á staðnum sem hefur ekki aðgang að því lánsfé sem fjármagnað er með henni.
Verðbólgan mun alltaf koma verst niður á þeim sem hafa verst kjörin því að hún étur þann kaupmátt sem það hefur og fátækir og eignalausir hafa auðvitað ekki aðgang að lánsfé. Verðbólgufjármögnun á lánsfé mun því alltaf leiða til misskiptingar.
Þegar þeir sem lægst hafa launin fara í kjarabaráttu, þar sem krafan er oft aðeins sú að leiðrétta laun fyrir verðbólgu, þá upphefst söngurinn um að ef laun hækki muni verðbólgudraugurinn koma og éta alla hækkunina. Þann söng syngja stjórnmálamenn og samtök atvinnulífsins, hagfræðingar spila undir og verkalýðsforkólfar sjá um bakraddirnar. Þetta tónverk hjómar auðvitað hvað verst í eyrum stórra stétta sem hafa ekki um aðra vinnuveitendur að velja en ríkið, eins og starfsfólk í mennta og heilbrigðisgeiranum. Fólki er sem sagt uppálagt að verja sig ekki gegn verðbólgu sem á rætur sínar í bankakerfinu því að þá verði verðbólgan enn verri. Þetta er hin opinbera íslenska efnahagskenning rekin af stjórnvöldum í krafti vanþekkingar almennings á verðbólgu. Á sama tíma auka bankar peningamagnið með því að lána fyrir kaupum í sjálfum sér með velþóknun og aðstoð hins opinbera.

Verðtrygging
Þar sem verðbólga stafar af bankakerfinu hlýtur verðtrygging að vera áhugavert fyrirbæri. Hún gengur þannig fyrir sig að lántakandi kemur í banka og vill húsnæðislán. Bankinn býður verðtryggt og óverðtryggt lán. Bankinn segir lántakanda að verðtryggt lán sé hagstæðara og að verðbólgumarkmið seðlabanka séu 2,5%. Lántakandi heldur að verðbólga sé óvissuþáttur fyrir bankann og með verðtryggingu geti hann því boðið lægri vexti, seðlabanki í samstarfi við veðurstofuna muni svo sjá um verðbólguna. Hann áttar sig ekki á því að vextirnir á óverðtryggða láninu endurspegla raunverulega verðbólguspá bankans sem er meðal annars byggð á hans eigin útlánastefnu. Þegar búið er að skrifa undir getur svo lántakandi beðið til guðs um að bankinn breyti ekki útlánastefnunni og haldi áfram að lána til húsnæðiskaupa því annars gæti húsnæðisverð lækkað meðan kartöfluþáttur verð vísitölunnar rýkur upp og gerir lántakanda gjaldþrota. Þegar bankinn er búinn að koma því þannig fyrir að langtímalánin eru verðtryggð hefur hann frjálsar heldur með útlánastefnuna. Hann getur stundað eins mikla lánaútþenslu og honum sýnist því að hann er búinn að tryggja langtímalánin fyrir eigin aðgerðum. Bankinn fer því að bera lán á fólk og allt að því krefst þess að hver maður sé með hálfa miljón í yfirdrátt.
Hefði verðtrygging verið afnumin þegar bankarnir voru seldir og verðbólga var í þokkalegu horfi hefðu bankarnir orðið að hafa hemil á eigin útlánum til að tapa ekki á langtímalánunum. Seðlabankastjóri bar því við að hækkun bindiskyldu hefði ekki slegið á útlánaþensluna og stýrivaxta hækkanir bitu ekki, það má velta því fyrir sér hvort afnám verðtryggingar hefði verið meðalið.
Vöruverð á alþjóðlegum mörkuðum hefur sömu áhrif á verðlag hér og í öðrum opnum hagkerfum. Samt sem áður hefur verðbólga verið hærri hér en í nágrannalöndunum. Það er ein hagstærð sem stendur uppúr þegar Ísland er skoðað, útþensla peningamagns. Hún hefur valdið því að ein dönsk króna kostar í dag um 1600 íslenskar sé miðað við gengið þegar að íslenska krónan var tekin upp.

Verðbólguhagkerfið
Undir þessu fyrirkomulagi peningamála og þeirri hagfræði sem byggst hefur upp í kringum það er ekki um hefðbundið markaðshagkerfi sem byggir á framleiðslu ,hagræðingu og sparnaði að ræða. Fremur er um að ræða hagkerfi sem drifið er áfram af verðbólgu. Þegar hagsveiflan hefst eru vextir lágir og útlán fara að aukast. Nýju peningarnir eru notaðir til að hækka boð í eignir sem réttlætir svo frekari útlán og af stað fer sjálfsfóðrandi lána og eignabóla. Smám saman fer eignaverðbólgan að dreifast út í almennt verðlag. Þá taka vextir að hækka og útlán minnka. Þá er svo komið að offjárfesting hefur orðið í ýmsum greinum hagkerfisins vegna þess að peningamagnsaukningin skilaði markaðnum röngum upplýsingum. Því verður samdráttur meðan hagkerfið er að ná jafnvægi á ný.
Gallinn er sá að verðbólguhagfræðin lítur hina peningamagnsdrifnu uppsveiflu jákvæðum augum og lítur svo á að þær greinar sem peningamagnið streymir inn í drífi hagkerfið áfram. Þannig var það í .com bólunni í Bandaríkjunum, þá var því haldið fram að tölvugeirinn drifi hagkerfið áfram þangað til bólan sprakk og í ljós kom gríðarleg sóun og glórulausar fjárfestingar. Þá voru vextir lækkaðir og grunnurinn lagður að húsnæðisbólunni, sem svo auðvitað var álitin drífa hagkerfið áfram þangað til hún svo sprakk og dró fjármálakerfið með sér ofan í svaðið.
Í uppsveiflunni getur hlutabréfaverð hækkað gríðarlega og eigendur hafa meira upp úr því að stuðla að hækkandi hlutabréfaverði en að hafa tekjur af starfsemi fyrirtækisins. Fyrirtæki geta verið hátt verðmetin án þess að borga nokkurn arð eða hafa nokkrar tekjur. Þetta veldur því að eigendur fyrirtækja fara að einbeita sér að því að hámarka verðmæti fyrirtækisins til skamms tíma fremur en að einbeita sér að tekjustofnum, hagræðingu og langtíma fjárfestinu. Þessvegna er það oft svo að þegar að bólan springur reynast þau fyrirtæki sem risu hvað hæst í uppsveiflunni gjaldþrota, skuldug og yfirveðsett.
Skynsamlegasta útskýringin á hagsveiflu af þessu tagi er hin austurríska kenning um hagsveifluna (austrian theory of the trade cycle). Samkvæmt henni er það sú aðgerð að lækka vexti niður fyrir markaðsvexti með peningamagnsaukningu sem gefur hagkerfinu röng skilaboð og leiðir af sér fjárfestingar sem ekki geta staðið undir sér og hefðu annars ekki átt sér stað. Þegar vextir eru lækkaðir niður fyrir markaðsvexti eru fjárfestar blekktir til að halda að sparnaður hafi aukist og að margir hafi tekið þá ákvörðun að skera við sig neyslu til skamms tíma til að auka hana síðar. Lægri vextir hafa sérstaklega mikil áhrif á langtíma fjárfestingar þar sem langur tími líður þar til fjárfestingin fer að skila arði. Þegar svo að því kemur þá reynast hinir meintu sparendur ekki vera vera til staðar, þeir hafa sjálfir verið að eyða og þurfa nú að draga saman neyslu og borga skuldir. Fjárfestingin fer því út um þúfur. Þá tekur við niðursveifla þegar hagkerfið þarf að leiðrétta sig fyrir hinum röngu skilaboðum. Hefði húsnæðisbólan á Íslandi verið fjármögnuð með sparnaði en ekki peningamagns útþenslu væri nú fjöldi manns sem hefði ráð á að kaupa það húsnæði sem byggt var á uppgangs tímanum.
Sú hugmyndafræði að niðurgreiða vexti með verðbólgu veldur því reglulegum upp og niðursveiflum með tilheyrandi sóun og firringu.
Verði þetta kerfi ekki afnumið er morgunljóst að þegar við höfum unnið okkur út úr því efnahagsástandi sem nú ríkir mun partýið hefjast á ný. Þegar það byrjar mun því verða haldið fram að upp hafi risið nýtt og betra hagkerfi þar sem ekkert þarf að framleiða, aðeins að færa pappíra milli herbergja. Í því ástandi mun einginn nenna að hlusta á úrtölumenn og nöldrara þangað til allt fer á hliðina.

Völdin
Thomas Jefferson 3. forseti bandaríkjanna og einn af þeim sem sömdu stjórnarskrána barðist gegn yfirráðum bankanna yfir peningunum lét hafa þetta eftir sér.

"Það er mín skoðun að bankar séu hættulegri frelsi okkar en óvinveittir herir. Leyfi Bandaríkjamenn eitthverntíma bönkum í einkaeigu að stjórna útgáfu peninga munu þeir ásamt fyrirtækjunum sem byggjast upp í kringum þá taka til sín allar eigur fólksins með því að auka og minnka peningamagnið á víxl, þar til börnin okkar vakna upp heimilislaus í landinu sem forfeður þeirra byggðu. Útgáfu peninga verður að taka úr höndum bankanna og setja í hendur fólksins þar sem hún á réttilega heima."

Hann reyndist sannspár því að í dag ræður 1% Bandaríkjamanna 2/3 hlutum verðmætanna í landinu og upp spretta tjaldbúðir heimilislauss fólks.

Pólitíkin
Það fyrirkomulag peningamála sem hér er fjallað um samræmist hvorki pólitískri hugmyndafræði til vinstri eða hægri.
Þar sem kapítalismi er fyrirkomulag sem byggir á eignarrétti og eikarekstri og gengur út á að framleiða og hafa hagnað af starfseminni, sem aftur er fjárfest fyrir frekari arð, getur sú starfsemi að lána út peninga sem búnir eru til úr engu í skjóli ríkisins tæplega samræmst þeirri hugmyndafræði. Bankakerfi í þessari mynd getur ekki starfað án stuðnings ríkisins sem sést kannski best á því hér að þegar það var orðið of stórt fyrir ríkið hrundi það til grunna. Og hinir fölsku riddarar hins frjálsa markaðar komu svo skuldum sínum yfir á ríkissjóð, enda á sósjalnum allann tímann.
Í klassískri sósíalískri hugmyndafræði er fjallað um auðvaldið sem í krafti auðsins stjórnar samfélaginu gegnum ríkisvaldið í eigin þágu. Í þessari hugmyndafræði er þó gert ráð fyrir því að auðvaldið þurfi að framleiða verðmæti, að það eigi framleiðslutækin. Það auðvald sem hér um ræðir stundar á hinn bóginn það að búa til peninga úr engu, lána þá út og heimta vexti. Þetta auðvald er auðvitað hið raunverulega auðvald í heiminum í dag. Það væri skrítin vinstristjórn sem með bankakerfið í hendi sér nýtti ekki tækifærið og afnæmi heimild þess til að auka peningamagnið
Pólitísk hugmyndafræði ætti því ekki að standa í vegi fyrir að afnema þetta kerfi og ekki dugar að segja að kerfið sé við líði í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við þar sem það er hrunið þar líka.

Aðrar leiðir
Verði þetta fyrirkomulag afnumið eru í fljótu bragði tvær leiðir færar.
Hægt er að hafa stjórn peningamála í höndum ríkisins og líta á útþenslu peningamagns sömu augum og skattheimtu. Vilji ríkið auka peningamagn í umferð verði þeim peningum varið í almannaþágu og almenningur fái tjónið af verðminni peningum bætt í betri samgöngum og almannaþjónustu. Þetta fyrirkomulag er einnig lýðræðislegt að því gefnu að hér sé sæmilega lýðræðislegt fyrirkomulag.
Hinsvegar er hægt er að taka upp vörugjaldmiðil þar sem peningar eru gefnir út sem ávísun á þá vöru sem gjaldmiðillinn er byggður á. Kosturinn er sá að ekki er hægt að auka peningamagnið án þess að framleiða eða kaupa þá vöru sem lögð er til grundvallar. Þessar vörur eru yfirleitt gull eða silfur. Vandinn er hinsvegar sá að erfitt er að taka upp slíkann gjaldmiðil í einu skrefi og hér á landi er hvorki framleitt gull né silfur. Hinsvegar er sjálfsagt að gera gull og silfur að löglegum gjaldmiðli við hliðina á krónunni. Þannig gæti fólk varið sig gegn lélegri hagsstjórn og gengissveiflum auk þess sem þetta fyrirkomulag myndi veita ríkinu aðhald.

Það er eins með verðbólgudrauginn og aðra drauga, hann leggst á þá sem á hann trúa. Aðrir draugar í Íslandssögunni týndu fljótlega tölunni eftir að rafmagnið kom. Það sama gildir um þennann, það þarf bara að kveikja á perunni.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Pétursson

Þetta er fróðleg lesning hjá þér.

Þegar ég ólst upp þá var verðbólga..... "rangt var rétt".... það var rangt að taka lán - en samt "rétt" - eina leiðin til að eignast eitthvað var að tak lán og láta svo lánið "gufa upp" - og þá eignaðist þú eitthvað..... verðbólgan (Bólgu Móri) át upp skuldirnar...

sem sagt skilaboðun voru þá - Rangt er samt rétt....

Jæja -svo breyttist þetta aðeins - raunvextir komu.... og rétt var aftur rétt......"ódýrast" (rétt)  í seinni tíð vara að taka erlend lán..... ábyrg fjármálastjórn...... lægstu vextirnir       .......  í ákveðinn tíma

Svo hrundi bankakerfið -

Rétt sem hafði verið rétt.... var aftur orðið RANGT.......

Hvað er rétt í dag - og hvað er rangt ?????? 

Vaslac Havel hélt fræga ræðu á svölum þinghússins í Prag þegar járntjaldið féll og sagði m.a. á þessa leið (eftir minni).

"Stærsta tjónið  á ráðstjórnartímabilinu var ekki hið efnahaglsega tjón - og var það þó ærið tjón.  Stærsta tjónið  var það tjón sem varð á hugarfari fólks - tjón sem verður aldrei bætt".....

Spurning dagsins:  Hvernig á að skapa aftur traust um - hvað er rétt??

Kristinn Pétursson, 17.10.2009 kl. 13:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband